Ökumenn, sem vilja fara inn í miðborg Stokkhólms, þurfa brátt að greiða sérstaklega fyrir það. Borgaryfirvöld hafa ákveðið að innheimta 10-20 sænskar krónur, eða um 100-200 krónur af þeim ökumönnum, sem vilja fara gegnum miðborgina til að reyna að stemma stigu við umferðaröngþveiti og mengun.
Fyrr á þessu ári gripu borgaryfirvöld í Lundúnum til svipaðra ráða og þurfa ökumenn að greiða sérstakt gjald í miðri viku fyrir að fara inn í miðborgina.
Borgarráð Stokkhólms samþykkti í vikunni með 51 atkvæði gegn 49 að innheimta gjaldið og kemur það til framkvæmda árið 2005. Verður það mismunandi hátt eftir svæðum og tímum. Ekki þarf að greiða af almenningsvögnum, leigubílum og mótorhjólum.
Ekki er búið að skipuleggja í þaula hvernig gjaldið verður innheimt, en væntanlega fá ökumenn sérstök kort í bíla sína þar sem gjaldið verði dregið sjálfkrafa frá inneign.
Jafnaðarmannaflokkurinn, Græningjar og Vinstriflokkurinn mynda meirihluta í borgarstjórn Stokkhólms og var þetta gjald hluti af stjórnarsáttmála flokkanna.
Claes Thunblad, talsmaður jafnaðarmanna, segir að vonast sé til að gjaldið leiði til þess að bílaumferð í miðborginni verði 15-20% minni. 755 þúsund manns búa í borginni, en yfir 640 þúsund bílar fara um borgina á hverjum degi og er sú umferð talin munu tvöfaldast á næstu 15 árum.