Bandarískir embættismenn áttu minnst 20 fundi með fulltrúum talibana þar sem rætt var hugsanlegt framsal Osama bin Ladens. Sumir sérfræðingar telja að talibanar hafi viljað losna við hryðjuverkaforingjann en Bandaríkjamenn hafi ekki skilið "merkjasendingar" þeirra.
Á þriggja ára tímabili áttu bandarískir embættismenn að minnsta kosti 20 leynilega og opinbera fundi með fulltrúum talibana-stjórnarinnar í því skyni að kanna hvernig fá mætti hryðjuverkaforingjann Osama bin Laden framseldan.Þessum viðræðum var fram haldið allt þar til fáeinum dögum áður en hryðjuverkamenn gerðu sjálfsmorðsárásir á Bandaríkin 11. september, að því er heimildarmenn, sem nærri komu, segja. Fulltrúar talibana gáfu ítrekað í skyn að bin Laden yrði framseldur ef gengið yrði að tilteknum skilyrðum þeirra.
Embættismenn í bandaríska utanríkisráðuneytinu þvertóku hins vegar jafnan fyrir að víkja frá þeirri kröfu sinni að réttað yrði yfir bin Laden samkvæmt bandarísku dómskerfi. Að auki var óljóst hvort sendimenn talibana gætu uppfyllt þá samninga, sem hugsanlega yrðu gerðir þar sem ekki var vitað hvort þeir hefðu umboð til að tala í nafni allra þeirra hópa, sem að ríkisstjórn Afganistan standa.
Þessi saga hefur ekki verið sögð nema að litlu leyti og er til marks um þá tvíþættu stefnu, sem Bandaríkjamenn mótuðu í þeim tilgangi að hafa hendur í hári bin Ladens. Á sama tíma og fundir fóru fram með fulltrúum talibana fylgdi leyniþjónustan, CIA, leynilegri áætlun, sem gerð var til að ná hryðjuverkaforingjanum illræmda.
Nokkrir sérfræðingar um málefni Afganistan segja að Bandaríkjamenn hafi ekki gert sér ljóst að talibanar hafi þurft á "aabroh" að halda en á pashtu þýðir það hugtak "aðferð til að bjarga andlitinu". Embættismönnum Bandaríkjastjórnar tókst ekki að koma til móts við ótta talibana um álitshnekki ef þeir framseldu bin Laden, múslíma, í hendur "trúvillinga" á Vesturlöndum.
"Við tókum þessu ekki af nægilegri alvöru. Og það á ekki aðeins við þessa ríkisstjórn heldur og þá, sem á undan fór," segir Richard Hrair Dekmejian, sérfræðingur á sviði íslamskrar bókstafstrúar, sem starfar við Southern California-háskólann. "Við sýndum ekki nægilegt hugvit í viðskiptum við þetta fólk. Tækifæri fóru forgörðum."
Bandarískir embættismenn áttu erfitt með að eiga samskipti við íslamska klerka, sem höfðu lítinn skilning á viðteknum reglum um samskipti ríkja og vantreystu Vesturlöndum í flestu. Að auki tókst ekki að nýta bresti innan talibana-stjórnarinnar.
"Við einfaldlega skildum ekki hvað þeir voru að reyna að segja," segir Milton Bearden, fyrrum stöðvarstjóri CIA, sem stjórnaði leynilegum aðgerðum í Afganistan á níunda áratugnum. "Við töluðum ekki sama málið. Við sögðum: "látið okkur fá bin Laden". Þeir sögðu: "Gerið eitthvað til að hjálpa okkur að framselja hann"."
Einn heimildarmaður sagði að Bandaríkjamenn hefðu í upphafi sýnt "mjög mikla þolinmæði". Hún hafi hins vegar gufað upp með öllu þegar fundunum fjölgaði og talibanar kváðust ætla að hreyfa sig í málinu en ekkert gerðist.
Fundirnir fóru fram í Tashkent, Kandahar, Islamabad, Bonn, New York og Washington. Fyrir kom að óvænt símtöl bárust. Í einu þeirra ræddi ekki mjög háttsettur bandarískur embættismaður við Mohammad Omar, leiðtoga talibana-stjórnarinnar, í 40 mínútur. Óvæntur gestur skaut upp kollinum í Washington og reyndist vera fulltrúi talibana. Með í för hafði hann bréf og teppi að gjöf til George W. Bush forseta.
Súdanir reyndust hins vegar ekki viljugir til samstarfs og í stað þess að handtaka bin Laden var hann hrakinn úr landi til Afganistan í maímánuði 1996. Nokkrum mánuðum síðar tóku talibanar Kabúl, höfuðborg Afganistan.
Ríkisstjórn Bills Clintons forseta tók ekki að þrýsta raunverulega á talibana um að framselja bin Laden fyrr en eftir árásirnar á sendiráð Bandaríkjanna í Kenýa og Tansaníu í ágúst 1998. Í þeim féllu 224 menn, þar af 12 Bandaríkjamenn, og um 4.600 særðust.
Heimildarmaður segir að sprengjutilræðin í Austur-Afríku hafi skipt sköpum um sýn ráðamanna í Washington til talibana-stjórnarinnar. Bandaríkjamenn sannfærðust um að Mohammad Omar ætlaði sér ekki aðeins að ráða Afganistan heldur hygðist hann skjóta skjólshúsi yfir hinn gamla vin sinn, bin Laden, til að gera honum kleift að fremja hryðjuverk erlendis.
Tvíþætt stefna var því mörkuð. Annars vegar var talibönum hótað refsingum og útskúfun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Samhliða voru hafnar viðræður við fulltrúa talibana.
Nokkrum dögum eftir árásirnar á sendiráðin tók Michael Malinowski, starfsmaður í utanríkisráðuneytinu, að hringja til Afganistan og leita eftir samtölum við talibana. Í eitt skiptið ræddi hann við Mohammad Omar. "Ég sagði: "Látið okkur fá bin Laden" og þeir sögðu "Nei ... sýnið okkur sönnunargögnin"," segir Malinowski. Talibanar héldu því m.a. fram að bin Laden væri gestur þeirra og gesti sína rækju menn ekki í burtu. "Það er ekki hægt að sætta sig við að gesturinn fari upp á húsþakið og taki að skjóta á nágrannana," svaraði Malinowski.
Strax eftir að viðvöruninni varðandi sameiginlega ábyrgð á hermdarverkum bin Ladens hafði verið komið á framfæri við talibana brugðust þeir við með því að flytja bin Laden frá borginni Kandahar þar sem hann hafði haft höfuðstöðvar sínar. Jafnframt tóku þeir fjarskiptabúnað hans og bönnuðu honum að hafa samskipti við fjölmiðla.
Opinberlega tóku talibanar að halda því fram að þeir vissu ekki hvar bin Laden væri niður kominn. Bandaríkjamenn líta svo á að þetta hafi þeir gert til að geta betur varist framsalskröfum.
Í október 1999 lögðu talibanar til að bin Laden yrði dreginn fyrir rétt annaðhvort í Afganistan eða í öðru íslömsku ríki. Ein tillaga þeirra kvað á um að nefnd þriggja íslamskra lögfræðinga yrði falið að leiða mál hans til lykta og myndu Afganar, Sádi-Arabar og Bandaríkjamenn tilnefna fulltrúa í nefndina.
Samhliða þessu kröfðust talibanar frekari sönnunargagna fyrir ábyrgð bin Ladens, sem Bandaríkjamenn litu á sem aðferð til að fresta framgangi málsins.
Samskipti bandarískra embættismanna og talibana rofnuðu ekki algjörlega eftir fjöldamorðin 11. september. Þannig ræddi Milton Bearden við háttsettan fulltrúa talibana snemma í október og sá taldi góðar líkur á því að bæði sádi-arabískir klerkar og ráðstefna samtaka Íslamskra ríkja myndi leggja blessun sína yfir að orðið yrði við kröfu Bush forseta um framsal bin Ladens. Með milligöngu Sádi-Araba væru á að giska helmingslíkur á að málið hlyti farsælan endi.
Fimm dögum síðar var bin Laden enn í Afganistan og bandamenn hófu loftárásir. "Ég er ekki í nokkrum vafa um að þeir vildu losna við hann. Það kom sér mjög illa fyrir þá að vernda hann," segir Bearden. "En þetta gekk aldrei saman hjá okkur," bætir hann við.
Washington. The Washington Post.