9 manns hafa nú látist af völdum dularfullrar lungnabólgu

Ferðamaður á alþjóðaflugvellinum á Taívan gengur fram hjá skilti sem …
Ferðamaður á alþjóðaflugvellinum á Taívan gengur fram hjá skilti sem vísar veginn að sótthreinsiteppi. AP

Níu manns hafa látist af völdum áður óþekktar tegundar af lungnabólgu sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin, WHO, segir að ekki sé hægt að lækna með venjulegum lyfjum. Þessi veiki hefur til þessa verið bundin við Suðaustur-Asíu en breiðist nú um heiminn með flugfarþegum og segir WHO að um sé að ræða heilbrigðisógn. Hefur veikinnar nú orðið vart á þremur meginlöndum, þar á meðal í Evrópu. „Heimurinn þarf að vinna saman til að finna hver orsökin er, lækna hina sjúku og stöðva útbreiðslu veikinnar," sagði Gro Harlem Brundtland, framkvæmdastjóri WHO, í yfirlýsingu.

„Á meðan við vitum ekki hvað við erum að fást við getum við ekki hægt á faraldrinum," segir Dick Thopmson, talsmaður WHO. „Venjuleg sýklalyf hafa engin áhrif. Þetta er bráðsmitandi veiki og hún best um með þotum. Ástandið er alvarlegt," sagði hann.

Ung hjúkrunarkona lést í Hanoi í Víetnam í gær. Hún smitaðist þegar hún var að hjúkra bandarískum kaupsýslumanni sem lést í síðustu viku.

Veikinnar varð fyrst vart í Guangdong-héraði í Kína í nóvember og þá létust fimm manns. Á síðustu dögum hafa fjórir til viðbótar látist og 150 að minnsta kosti hafa smitast í Asíu, Evrópu og Norður-Ameríku.

Sérfræðingar vita ekki enn hvort bakteríur eða veirur valda þessum sjúkdómi og hvort öll tilfellin stafi af sömu tegund veikinnar. Sjúklingum hrakar ört eftir að þeir fá upphaflega einkenni sem minna á venjulega inflúensu.

Tveir létust af völdum þessa sjúkdóms í Kanadag og í gær var læknir, sem var á leið milli Singapúr og New York, settur í einangrun þegar hann millilenti í Þýskalandi þar sem hann sýndi einkenni veikinnar. Hann hafði meðhöndlað sjúkan mann í Singapúr. Tveir ferðafélagar læknisins voru einnig settir í sóttkví og 155 farþegar í flugvélinni voru annað hvort settir í sóttkví tímabundið eða sendir heim og sagt að halda sig þar.

WHO segir að engin ástæða sé að hætta ferðalögum en hvetur fólk til að leita strax læknis ef það hefur farið á sýkt svæði og fær einkenni veikinnar, þar á meðal hósta, háan hita og öndunarerfiðleika. Einnig geta einkennin verið höfuðverkur, beinverkir, listarleysi, útbrot og niðurgangur. Talið er að meðgöngutími veikinnar sé 2-7 dagar.

Bandarísk stjórnvöld segir að ferðamenn ættu að íhuga að fresta ferðum til landa þar sem veikin hefur komið upp. Bandarískir sérfræðingar í faröldrum eru komnir til Víetnam og von er á frönskum læknum með lyf og öndunarvélar. Sýni hafa verið send frá Hanoi til Atlanta í Bandaríkjunum til rannsóknar

Faraldurinn í Hanoi hófst þegar bandarískur kaupsýslumaður kom á leið frá Shanghai millilenti þar og var fluttur veikur á sjúkrahús. Í kjölfarið smitaðist allt að 31 starfsmaður sjúkrahússins þar sem hann lá, þar á meðal hjúkrunarkonan sem lést í gær. Þrír sjúklingar eru enn í lífshættu. Bandaríkjamaðurinn var fluttur til Hong Kong en lést þar í síðustu viku.

Að minnsta kosti 11 manns hafa verið fluttir á annað sjúkrahús í Hanoi eftir að hafa fengið einkenni sjúkdómsins.

Kanadísk heilbrigðisyfirvöld segja að mæðgin hafi látist í Toronto fyrr í þessum mánuði en þau voru þá nýlega komin frá Hong Kong. Nokkrir ættingjar þeirra eru nú á sjúkrahúsum.

Vitað er að sextán manns hafa veikst í Singapúr og 3 á Taívan. Í Hong Kong hafa 42 starfsmenn sjúkrahúsa fengið veikina og hennar hefur orðið vart í Indónesíu og Taílandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert