Fiskneysla dregur úr líkum á Alzheimersjúkdómi

Ný bandarísk rannsókn bendir til að fiskneysla dragi til muna úr líkum á að aldraðir fái Alzheimersjúkdóm. Eru þessar niðurstöður í samræmi við fyrri rannsóknir sem sýna að samband er á milli omega-3 fjölómettaðra fitusýra sem finnast í fiski og starfsemi heilans og neysla þeirra örvar heilastarfsemi, minni og námshæfileika.

Í rannsókn, sem gerð var á 800 manns á aldrinum 65 ára og eldri, kom í ljós að þeir sem borðuðu fisk að minnsta kosti einu sinni í viku voru mun ólíklegri, eða um 60%, til að fá Alzheimer en þeir sem ekki borðuðu fisk.

„Niðurstöður okkar sýna að með því að borða fisk að minnsta kosti vikulega, salatsósur með olíu í og hnetur, sé hægt að draga úr líkum á Alzheimersjúkdómnum," segir Martha Clare Morris, aðalhöfundur skýrslunnar en rannsóknin var gerð á St. Luke sjúkrahúsinu í Chicago.

Fylgst var með fólkinu í sjö ár á árunum frá 1993 til 2000. Engin af þeim 815 sem fylgst var með hafði einkenni Alzheimer þegar rannsóknin hófst en 131 fékk þennan heilahrörnunarsjúkdóm á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert