„Líkamsklukkurofinn“ fundinn

Góður svefn er nauðsynlegur öllum.
Góður svefn er nauðsynlegur öllum. AP

Vísindamenn segja að þeir hafi fundið efnafræðilegan rofa sem stjórnar hinu erfðafræðilega gangverki sem aftur stýrir líkamsklukkunni, sem er innbyggð í alla einstaklinga.

Þeir segja að þrátt fyrir að um flókið genafræðilegt ferli sé að ræða þá sé það í raun aðeins ein amínósýra, sem er grunneining próteins, sem stjórnar ferlinu. Þetta kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins.

Vonast er til þess að niðurstöðurnar leiði til þess að m.a. verði hægt að búa til betri svefnlyf .

Háskólinn í Kaliforníu hefur birt rannsókn sína í vísindaritinu Nature.

Paolo Sassone-Corsi, sem fór fyrir rannsókninni, segir að þar sem um svo nákvæma rofavirkni sé að ræða þá virðist sem svo að hún hafi áhrif á  efnasambönd sem aftur geti stjórnað svefnvenjum fólks.

„Það er ávallt ótrúlegt að fylgjast með því hversu nákvæm stjórn sameinda er í líffræði,“ segir hann.

Líkamsklukkan mannsins er afar næm og getur séð fyrir ýmsar breytingar sem verða í umhverfinu. Hún sér um að stjórna mikið af þeirri starfssemi sem á sér stað í líkama fólks, t.d. svefnmynstri þess, efnaskiptum og hegðun.

Talið er að klukkan stýri um 15% af öllum genum líkamans.

Það getur því haft mikil áhrif á heilsu manna verði klukkan fyrir truflun. Svefnleysi, þunglyndi, hjartasjúkdómar, krabbamein og  taugahrörnun er á meðal þess sem er sagt tengjast þessari truflun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka