Nætursvefn gefur hærri einkunn

Námsmenn sem vaka heilu næturnar við próflestur ættu ef til vill að hugsa sig tvisvar um og fá í staðinn góðan nætursvefn því að samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar sem gerð var í Bandaríkjunum fá þeir sem aldrei lesa undir próf á nóttunni lítið eitt hærri einkunnir en nátthrafnarnir.

Könnunin var gerð meðal 120 nemenda við lítinn háskóla í New York. Þeir nemendur sem aldrei höfðu vakað heila nótt yfir skólabókunum höfðu að meðaltali fengið örlítið hærri einkunnir en þeir sem lesið höfðu á nóttunni.

Munurinn reyndist að vísu lítill, en höfundur könnunarinnar, Pamela Thacher, aðstoðarprófessor í sálfræði, segir niðurstöðurnar engu að síður sláandi. Hún sinnir rannsóknum á svefni og fullyrðir að enginn geti hugsað skýrt klukkan fjögur á nóttunni.

Niðurstöðurnar verða birtar í janúarhefti tímaritsins Behavioral Sleep Medicine.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka