Óvíst hvenær iPhone 3G kemur til Íslands

Steve Jobs, forstjóri Apple, kynnir nýjan iPhone í gær.
Steve Jobs, forstjóri Apple, kynnir nýjan iPhone í gær. Reuters

Vodafone býst við að iPhone 3G komist í notkun á Íslandi innan tveggja ára. Síminn segir menn leita allra leiða til að innleiða símann en markaðurinn sé lítill á heimsmælikvarða. Sala slíkum símum hefst 11. júlí og hefur TeliaSonera m.a. boðað þjónustu á hinum Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndum frá og með þeim tíma.

Björn Viglundsson hjá Vodafone segir Vodafone Global hafa gert samning við Apple á sölu á 11 völdum mörkuðum í Evrópu en Ísland sé ekki meðal þeirra. Ekki sé hægt að segja fyrir um það nú hvenær iPhone 3G síminn og þjónusta samfara honum komi til Íslands. „Það verður annað hvort á þessu ári eða því næsta,“ segir Björn. „Líklega því næsta.“

Hjálmar Gíslason hjá Símanum segir að verið sé að reyna allt sem hægt sé svo iPhone komi til Íslands en ekkert sé frágengið enn. „Þetta er lítill markaður, ekki nema 310.000 manns og allur heimurinn vill þetta. Við erum því neðarlega á listanum hjá Apple.“

Nálgun Apple vegna símanna er sú að hafa símann mjög ódýran en treysti í staðinn á tekjur fyrir að selja aðra hluti gegnum hann eins og tónlist, leiki og hugbúnað. Þetta krefst þess meðal annars að samið verði við Stef og rétthafa kvikmynda. Jafnmikil vinna fer í undirbúning okkar á litla markaði og á stórum markaði eins og til dæmis Malasíu en þar er ávinningur mun meiri vegna stærðar.

„Hann kemur á endanum,“ segir Hjálmar. „Fyrri útgáfur hafa komið og samningsákvæði við Apple verið brotin þótt síminn hafi ekki verið ólöglegur. Apple er meðvitað um þetta og í tali Steve Jobs hjá Apple um daginn sagði hann meðal annars að það væri skondið að iPhone væri farinn að telja í prósentum á mörkuðum þar sem hann væri samt ekki kominn í sölu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert