Bandarískir neytendur sem hafa áhuga á að kaupa nýja Apple 3G iPhone farsímann en vilja ekki skrifa undir tveggja ára samning við At&T símafyrirtækið, þurfa að borga 400 dollurum, eða 32 þúsund krónum meira fyrir símann, að því er fram kemur á fréttavef Reuters.
Nýi iPhone síminn, sem settur verður á markað 11. júlí, mun kosta 199 dollara, eða 15 þúsund krónur, með 8 gígabæta minni og 299 dollara eða 24 þúsund krónur með 16 gígabæta minni. Þessi verð gilda fyrir viðskiptavini sem skrifa undir þjónustusamning við At&T Inc.
Á fréttavef Reuters kemur fram að þeir viðskiptavinir sem vilja ekki eða geta ekki skrifað undir slíkan samning geti keypt símann fyrir 599 dollara, svo lengi sem þeir skrái sig í einhvers konar þráðlausa áskrift. Talsmaður At&T gaf ekki upp tímasetningu um hvenær sá möguleiki verður fyrir hendi.