Merkisdagur í vísindunum

Eðlisfræðingar sem leggja stund á öreindafræði telja sig geta opnað dyr inn í ókönnuð lönd þekkingar á miðvikudaginn kemur er þeir munu kveikja á maskínu sem er grafin um 100 metra niður í jörðina. Vélin er hönnuð til að svipta hulunni af stærstu leyndardómum efnisins.

Samkvæmt fréttaskýrendum AFP fréttastofunnar er þetta ein flóknasta ef ekki  sú flóknasta vísindatilraun sem gerð hefur verið. Vélin sem nefnist Large Hadron Collider (LHC) mun auka hröðun öreinda uns þær nálgast hraða ljóssins og láta þær síðan rekast saman.

Smæstu einingar efnis


Með þessari tilraun er verið að rannsaka smæstu einingar sem þekktar eru og reyna að komast að því hvað veldur því að þær loði saman á ákveðinn hátt og verði áþreifanlegar.

Hugsanlega mun þessi tilraun fylla upp í göt í þekkingu mannkyns um eðli efnis og hún gæti sannað eða afsannað nýlegar kenningar um tíma og rúm. Svarað spurningum á borð við er önnur vídd eða víddir til? Til viðbótar þeim fjórum sem almennt eru viðurkenndar af eðlisfræðinni (þjrár rýmdarvíddir ásamt tíma).

Risavaxið verkefni

Eftir að hafa eytt tveimur áratugum og 473 þúsund milljörðum íslenskra króna nálgast sú stund er þeir 5000 vísindamenn frá tæplega 40 löndum sem hafa lagt hönd á hið risavaxna verkefni komist að einhverri niðurstöðu.

Klukkan hálf átta að íslenskum tíma verður fyrstu róteindunum skotið inn í 27 km löng hringlaga göng undir svissnesku og frönsku landamærunum við höfuðstöðvar Evrópsku kjarnorkurannsóknarmiðstöðina (CERN).

Mikill hiti myndast

Við árekstur frumeindanna á þessum mikla hraða telja menn að gríðarlegur hiti muni myndast eða allt að 100 þúsund sinnum meiri hiti en sólin getur framleitt. Hitablossinn mun hvorki vara lengi né taka mikið rými en vísindamenn munu síðan rannsaka rústirnar í leit að nýjum frumeindum.

Miðvikudagurinn er merkisdagur í sögu eðlisfræðinnar. Aðstandendur verkefnisins hafa ráðið til sín almannatengla til að fullvissa almenning um að þeir muni ekki óvart búa til svarthol sem mun gleypa jörðina og alla íbúa hennar eða á annan hátt eyðileggja undirstöður þessa lífs á nokkurn hátt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert