Hafsbotninn bætist við Google Earth

Skjámynd Google Earth.
Skjámynd Google Earth.

Google hefur nú kynnt til sögunnar fyrstu meiriháttar uppfærsluna af Google Earth kortahugbúnaðinum. Með Google Ocean er bætt við kortagrunninn hafsbotni heimshafanna. Notendum er gert kleift að kafa niður í undirdjúpin til að skoða  sjávarbotninn í þrívídd.

Kortin geyma sömuleiðis um 20 efnislög með upplýsingum frá fremstu vísindamönnum heims, rannsakendum og könnuðum undirdjúpanna.

Samkvæmt frétt á BBC-vefnum var Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna og helsti umhverfisfrömuður landsins um þessar mundir, viðstaddur athöfnina í San Francisco þar sem nýju uppfærslunni, Google Earth 5., var hleypt af stokkunum en forráðamenn Google vænta þess að með nýja kortahugbúnaðinum hafi þær færst enn nær því marki að spanna alla heimsbyggðina.

Í yfirlýsingu sagði Gore að uppfærslan gerði Google Earth að „töfrandi upplifun“.

„Ekki aðeins er hægt að þysja að hverjum þeim hluta jarðar sem þú kýst að skoða nákvæmar heldur getur þú nú kafa niður heimshöfin sem þekja um þrjáfjórðu af yfirborði jarðar og uppgötvað ný undur sem ekki hafa verið aðgengileg  í fyrri útgáfum.“

Um það bil 70% af yfirborði hnattarins er þakin vatni og geymir nærri 80% af öllu lífi jarðar þótt aðeins um 5% þess hafi verið rannsakað.

Google Oceans stefnir að því að gefa notendum möguleika á að heimsækja marga af hinum áhugaverðari stöðum undirdjúpanna svo sem neðansjávareldfjöll, en auk þess leika myndbönd um líf sjávar, skipsflök og sýnishorn af rómuðum sjóbretta- og köfunarstöðum.

Ýmsar nýjunganna eru unnar í náinni samvinnu við haffræðinginn Sylvia Earle og ráðgjafaráð rúmlega 25 sérfræðinga og vísindamanna. Sylvia Earle, sem er staðarkönnuður hjá National Geographic Society, segir nýjungarnar bregða upp ljóslifandi mynd af hnettinum bláa.

„Ég get ekki ímyndað mér áhrifaríkari leið til að kveikja verndartilfinningu og umhyggju fyrir hinu bláa hjarta plánetunnar heldur en nýja Ocean í Google Earth, “ segir hún við BBC. „Í fyrsta sinn geta allir, allt frá forvitnum krökkum til fullgildra könnuða horft á heiminn, allan heiminn, með nýjum augum.“

Fleiri uppfærslur eru í nýju útgáfunni sem snúa að yfirborðskortunum svo sem GPS staðsetningar, rauntímaferðalög ( þar sem hægt er að sjá breytingar á gervihnattamyndum um leið og þær verða) og sitthvað fleira forvitnilegt.

Þá kemur fram að einnig hafi þrívíddarhluti reikistjörnunnar Mars verið uppfærður svo að hafi notendur fengið nóg af bláa hnettinum, geti þeir alltaf hallað sér að rauðu reikistjörnunni.

Kynning á Ocean uppfærslu Google Earth

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka