Tölvuþrjótar gerðu árás og ollu truflunum á samskiptasíðunni Facebook í dag. Fyrr í dag var greint frá því að örbloggssíðan Twitter hefði orðið fyrir barðinu á þrjótunum, og lá sú síða niðri í um tvær klukkustundir.
Talsmenn Facebook héldu síðunni gangandi, en í einfaldaðri mynd um stundarsakir.
Forsvarsmenn samskiptasíðanna telja að um svokallaða DOS-árásir (e. denial of service) hafi verið að ræða. Í stuttu máli sagt gengur árásin út á það að kaffæra tölvuþjóna fyrirtækjanna í upplýsingum í þeim tilgangi að gera þá óvirka.
Talsmenn Facebook segja að gögn og upplýsingar notendanna hafi ekki stafað ógn af þessum árásum. Síðan er nú komin í samt lag, en áfram er fylgst með ástandinu til að tryggja það að fólk geti notað síðuna með sama hætti og áður.