Áhersla eykst á rafræna stjórnsýslu

AP

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, segir að ríkisstjórnir um allan heim séu að endurskoða stefnumótun varðandi rafræna stjórnsýslu í kjölfar fjármálakreppunnar. Mörg lönd ætli að leggja meiri áherslu á þá þróun í þeirri von að þannig verði hægt á endanum að spara ríkisútgjöld og gera opinbera þjónustu hagkvæmari en önnur, þar á meðal Ísland, hafi neyðst til að draga úr fjárframlögum til þróunar upplýsingasamfélagsins.
 
OECD segir í nýrri skýrslu, að Þýskaland og Kórea hafi ákveðið að auka opinber útgjöld vegna nýrrar tækni í tengslum við aðgerðir til að örva atvinnulífið og styrkja samkeppnisstöðu upplýsingatæknifyrirtækja.  

Stofnunin segir að flest aðildarríki OECD hafi haldið fjárveitingum til rafrænnar stjórnsýslu óbreyttum hafi Þýskaland, Japan, Holland, Sviss og Bandaríkin aukið þau á þessu ári og búist við frekari aukningu á næstu árum. 

Ísland, Austurríki, Ungverjaland og Bretland hafa hins vegar dregið úr framlögum til þróunar rafrænnar stjórnsýslu á þessu ári. Segir OECD í skýrslunni, að opinber fjárframlög til upplýsingasamfélagsins hafi dregist saman um 16,5% á Íslandi á þessu ári og muni væntanlega dragast saman um 18% á því næsta.

OECD segir, að efnahagskreppan hafi einnig leitt til þess að ríki hafi endurskoðað stefnu varðandi rafræna stjórnsýslu. Bandaríkin nýti nú til dæmis upplýsingatækni til að gera fólki kleift að sjá til hvaða verkefna skattfé sé varið. Í Kóreu og Bretlandi sé upplýsingatækni einnig nefnd sem hluti af átaki til að auka gegnsæi í stjórnsýslunni.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka