Bros eru holl fyrir hjartað

Góður árangur íslenska handboltalandsliðsins hefur án efa haft góð áhrif …
Góður árangur íslenska handboltalandsliðsins hefur án efa haft góð áhrif á hjörtu Íslendinga. mbl.is/Kristinn

Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess, að hamingjusamt fólk eigi síður á hættu en annað fólk að fá hjartasjúkdóma. Ekki er verra að hamingjunni fylgi hollur matur, hreyfing og heilbrigðir lifnaðarhættir.

Á vef bandaríska blaðsins Washington Post er fjallað um rannsókn, sem vísindamenn við Kólumbíuháskóla hafa gert. Vísindamennirnir fylgdust með 1700 Kanadamönnum í áratug frá árinu 1995. Fólkið var allt heilbrigt í upphafi en áratug síðar höfðu 145 fengið hjartasjúkdóma. Niðurstöðurnar bentu ntil þess að þeir sem sögðust vera hamingjusamir fengju síður slíka sjúkdóma.  

„Ef þú ert ekki jákvæður og glaðlyndur í eðli þínu þá borgar sig samt að reyna að haga sér eins og slíkur," hefur blaðið eftir  Karinu Davidson, prófessor í læknadeild Kólumbíuháskóla, sem stýrði rannsókninni. „Það gæti verið hollt fyrir hjartað."

Davidson og samstarfsmenn hennar notuðu sérstaka fimm stiga einkunnargjöf til að leggja mat á hvort fólk væri hamingjusamt. Þau leiðréttu niðurstöðurnar síðan tölfræðilega með tilliti til aldurs og kyns fólks og hvort það reykti. 

Við hvert stig, sem fólk færðist upp hamingjuskalann var það 22% ólíklegra til að fá hjartasjúkdóma. Davidson segir, að hamingjusamt fólk sé einnig líklegra til að lifa heilsusamlegu lífi. Einnig kunna erfðafræðilegir þættir að spila inn í niðurstöðuna. 

Aðrir sérfræðingar hafa, að sögn Washington Post, bent á að hamingja geti haft jákvæð áhrif á hjartað samanborið við aðrar tilfinningar, svo sem streitu og þunglyndi. Streita losar oft hormóna sem geta skaðað hjartavöðvann. Þá getur streita einnig valdið því að æðar víkka of mikið sem aftur leiðir til þess að hrúður losnar og stíflar æðarnar.  

Washington Post

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert