D-vítamín mikilvægara en talið var

Feitur fiskur á borð við lax er góð uppspretta D-vítamíns.
Feitur fiskur á borð við lax er góð uppspretta D-vítamíns. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Nýjar rannsóknir sýna að D-vítamín er miklu mikilvægara fyrir líkamann en áður var talið. Vitað var að D-vítamín er nauðsynlegt líkamanum, verndi gegn krabbameini og beinþynningu. En nú hefur komið í ljós að D-vítamín gegnir lykilhlutverki í ónæmiskerfi líkamans.  Frá þessu er greint á vef danska dagblaðsins Berlingske Tidende.

„Vísindamenn hafa lengi vitað að D-vítamín gegndi mikilvægu hlutverki í baráttu líkamans við bakteríur. En það eru nýjar upplýsingar að D-vítamín sé afgerandi þegar kemur að því að virkja hinar svonefndum T-frumur líkamans, sem berjast gegn hættulegum sýkingum í líkamanum,“ segir Carsten Geisler, prófessor hjá Háskólanum í Kaupmannahöfn, sem stjórnaði nýju rannsókninni.

Bendir hann á að rannsóknin muni koma að góðum notum þegar farið verði að þróa ný bóluefni gegn sýkingum og flensum. Niðurstaðan þýðir að endurskrifa þarf kafla læknabóka um ónæmiskerfið.

Ekki er langt síðan frá því var greint á vef danska dagblaðsins Politiken að nýjar rannsóknir hefðu sýnt fram á að fólk á besta aldri sem og eldra fólk sem tæki nægilega mikið af D-vítamíni gæti dregið úr hættunum á því að fá annars vegar hjartasjúkdóma og hins vegar sykursýki um 43%.

D-vítamín má finna í miklu magni í eggjum, feitum fiski á borð við makríl, sardínur, síld, lax og lúðu, í olíum og lýsi.

Líkaminn getur einnig sjálfur framleitt D-vítamín þegar hann fær á sig sólarljós. Sökum þessa skortir margt fólk á norðurhveli jarðar D-vítamín á veturna.

D-vítamín er líkt og A-, E- og K-vítamín fituuppleysanlegt. Það þýðir að ekki er hægt að leysa vítamínið upp í vatni og því skilar það sér ekki út með þvagi fái líkaminn of mikið af D-vítamíni líkt og gerist þegar fólk fær of stóran skammt af C-vítamíni.

Þó D-vítamín er líkamanum nauðsynlegt þá er samtímis mikilvægt að gæta þess að taka ekki of mikið af D-vítamíni þar sem það safnast fyrir í líkamanum.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert