Jörðin er í hættu

Höfin varpa bláum bjarma út í tómið.
Höfin varpa bláum bjarma út í tómið.

Allt að 10% líkur eru á því að risasólgos skelli á jörðinni árið 2013, að mati norska stjarneðlisfræðingsins Knut Jørgen Røed Ødegaard sem segir í samtali við Morgunblaðið að ekki skipti máli hvort gosið skelli á jörðu að nóttu til eða degi. Hann segir Evrópu og Bandaríkin í hættu.

Eins og komið hefur fram á fréttavef Morgunblaðsins hefur Aftenposten gert varnaðarorðum vísindamannsins skil.

Ødegaard bendir á að síðasta sólgos hafi skollið á bláu plánetunni - eins og jörðin er oft kölluð - árið 2003 og valdið tjóni í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum, þar með talið í Malmö og Kaupmannahöfn. Þá hafi þrír gervihnettir eyðilagst í öreindaregninu.

Óvenju lítil virkni sólar á árunum 2007, 2008 og 2009 séu vísbendingar um að stórt sólgos sé í vændum árið 2013, jafnvel risasólgos.

Líkurnar frá 6,6% og upp í 10% 

Inntur eftir tölfræðilegum líkum á hamförum af þessu tagi segir hann þær vera frá 1/15 og upp í 1/10 eða sem svarar 6,6% líkum og upp í 10% líkur.

Spurður hvort máli skipti hvort sólgosið, straumur agna frá sólinni sem þeytist á ógnarhraða um kalt tómið í geimnum, skelli á himinhvolfinu yfir landmassa eða sjó segir Ødegaard að það sé aukaatriði.

Hefur eigið segulsvið 

Málið snúist um ríki norðan 50. breiddargráðu, til dæmis Bandaríkin, Kanada, Kína og ríkustu álfuna, Evrópu. Sólgos af þessari stærðargráðu hafi eigið segulsvið. Spurningin sé því hvort það skelli á jörðinni við suður- eða norðurpólinn. Áhrifin verði hófleg ef gosið lendi í suðrinu en að sama skapi stórkostleg ef norðurpóllinn verður fyrir því.   

Helmingslíkur séu á að norðurpóllinn verði fyrir gosinu og því megi helminga áðurnefndar líkur, 6,6% og 10%, niður í 3,3% og 5% líkur.

Þannig séu með öðrum orðum allt að því 5% líkur á að rafkerfi á norðurhveli jarðar verði fyrir stórkostlegu tjóni árið 2013, að því gefnu að ekki takist að slökkva á þeim í tæka tíð.

Mannkynið hefur aðeins 40 mínútur

Ødegaard tekur svo aðspurður fram að mannkynið hefði aðeins 40 mínútna fyrirvara áður en risagosið færi af stað, fyrirvari sem ólíklegt sé að dugi til að slökkva á rafkerfunum áður en agnirnar dragist með segulsviði jarðar og stórskemmi rafbúnað sem kveikt verði á.

Vart þarf að taka fram að hamfarir af þessari stærðargráðu gætu haft stórkostleg áhrif á hagkerfi heimsins, enda gæti tekið marga mánuði að endurbyggja stórskemmd rafkerfi og annað búnað.

Vísindamaðurinn Knut Jørgen Røed Ødegaard.
Vísindamaðurinn Knut Jørgen Røed Ødegaard.
Sólin er ógnvaldur og lífgjafi í senn.
Sólin er ógnvaldur og lífgjafi í senn.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert