Lán frá Finnum háð Icesave

Finnsk stjórn­völd segj­ast reikna með, að Íslend­ing­ar nái sam­komu­lagi við Breta og Holl­lend­inga um Ices­a­ve-málið en fyrr verði ekki greitt út það sem eft­ir er af láni, sem Finn­ar hafa heitið Íslend­ing­um í tengsl­um við sam­komu­lag Íslands og Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins. 

„Það er æski­legt og mjög lík­legt, að Ísland nái sam­komu­lagi við Breta oog Hol­lend­inga um fjár­mögn­un Ices­a­ve-skuld­ar­inn­ar," hafði finnska rík­is­út­varpið YLE eft­ir Ilkka Kaj­a­ste, hátt­sett­um emb­ætt­is­manni í finnska fjár­málaráðuneyt­inu, í dag.

Hann sagði að erfitt væri að meta hvenær slíkt sam­komu­lag muni nást og hve fljótt hægt væri að greiða Íslandi láns­féð. 

Nor­rænu seðlabank­arn­ir samþykktu að veita Íslend­ing­um 1,8 millj­arða evra lán á síðasta ári. Hluti láns­ins hef­ur verið greidd­ur út en Norður­lönd­in hafa sagt að af­gang­ur­inn verði greidd­ur út eft­ir að önn­ur end­ur­skoðun efna­hags­áætl­un­ar Íslands hef­ur farið fram hjá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum. Það átti að ger­ast í janú­ar en hef­ur taf­ist og eru þær taf­ir rakt­ar til Ices­a­ve-máls­ins.

mbl.is