Segir niðurstöðu ESA styrkja stöðu Hollendinga

Talsmaður hollenskra stjórnvalda segir að niðurstaða ESA um að Ísland hafi ekki mátt mismuna innlánseigendum á Íslandi og útlöndum styðja það sem Hollendingar hafi alltaf haldið fram og styrkja stöðu þeirra. „Við treystum því að þetta muni leiða til tímabærrar lausnar á Icesave-deilunni," segir hann í samtali við Financial Times.

Í FT er fjallað um það að ESA hafi fyrirskipað Íslendingum að greiða 3,4 milljarða punda sem breskir og hollenskir innistæðueigendur hafi glatað á reikningum Icesave á netinu. Hafni ESA þeirri skilgreiningu að Íslandi beri ekki lagaleg skylda til að greiða. Segir FT að niðurstaðan muni styrkja stöðu samninganefnda Breta og Hollendinga. Samkvæmt FT hefur Ísland heitið því að greiða en hafi notað lagalega óvissu sem afsökun til þess að reyna að fá betri samningsskilyrði.

Per Sanderud, forseti ESA, segir mikilvægt að neytendur viti að peningar þeirra séu öruggir en málið snýst um bankareglur milli landa.

mbl.is