Samanburður á verði á tölvuíhlutum

Búið er að taka í gagnið vef, vaktin.is, sem hefur það að markmiði að fylgjast með verði á helstum tölvuíhlutum hjá fjölmörgum tölvuverslunum hér á landi. Meðal annars er fylgst með verði á örgjörvum, hörðum diskum, vinnsluminni fyrir tölvur, skjákortum, skjáum og aflgjöfum. Þá er spjallsvæði til staðar þar sem netnotendur geta fengið upplýsingar og aðstoð, sem þá vanhagar um, án endurgjalds.

Á vaktin.is segir að eftirfarandi verð sé eingöngu lægsta verð hverrar verslunar fyrir sig, ekki sé tekið tillit til vörumerkja og gæða þeirrar vöru sem um ræðir. "Þessi listi er eingöngu ætlaður til viðmiðunar þegar farið er að púsla saman tölvu með hagkvæmni í huga. Allt verð er fengið af heimasíðum fyrirtækjanna og er fólk vinsamlegast beðið að hafa í huga að þetta er ekki endilega nýjasta verðið," segir á vaktin.is.

Kristján U. Kristjánsson, sem er einn þeirra sem starfað hefur við vefsíðuna, segir að vaktin hafi verið tekin í gagnið í lok júní. Þá var spjallkerfinu bætt við í ágúst. Hann segir að nokkrir áhugamenn standi að þessu framtaki en þá langi til þess að stofna til netsamfélags eins og tíðkast í mörgum nágrannalöndum. Hann segir að til standi að stækka vefsíðuna jafnt og þétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert