Eins manns farartækið Segway, sem ætlað var að bylta borgarsamgöngum, hefur enn sem komið er ekki orðið algeng sjón á götum Bandaríkjanna en tækið sem einungis er hægt að kaupa gegn um Amazon-netverslunina þykir dýrt og kostir þess umdeilanlegir. Nú hefur markaðssetning á því fengið nýjan farveg því nú er verið að opna Segway-leigur í Bandaríkjunum og hafa þær hlotið góðar viðtökur.
Fyrsta Segway-leigan, Fun Transport, var opnuð í Seattle í síðustu viku og hafa viðbrögðin að sögn eigandans, Larry Lambeth, verið ótrúlega góð. Fleiri leigur verða opnaðar innan skamms, meðal annars í Seattle í Bandaríkjunum og Vancouver í Kanada. Tíu Segway-tæki eru til leigu hjá Fun Transport og er hægt að leigja þau í allt að níutíu mínútur í senn. Þannig getur fólk skroppið í verslanir eða skoðað sig um án þess að þurfa að ganga eða hafa áhyggjur af bílaumferð. Segway-tækið er knúið rafmagni, ber einn mann og hentar vel á gangstéttum og göngugötum.
Leigutakar fá talstöð til þess að kalla á hjálp ef eitthvað bjátar á en þurfa hins vegar að skrifa undir samkomulag þar sem þeir taka á sig alla ábyrgð á slysum og óhöppum sem orðið geta. GPS-staðsetningartæki er svo falið í farartækjunum svo hægt sé að fylgjast með ferðum þeirra hverju sinni og hægt að koma í veg fyrir að þeir, sem hrífast af þessum nýja ferðamáta, taki tækin traustataki.