Truflun varð fyrir stundu á netsambandi Og Vodafone til Bandaríkjanna og var orsökin árás á netþjón ISNIC. Þetta varð til þess að þeir sem sækja netþjónustu sína til Og Vodafone áttu erfitt með að kalla upp erlendar vefsíður. Pétur Pétursson, forstöðumaður upplýsinga- og kynningarmála Og Vodafone, sem m.a. sér um flutning gagnaumferðar ISNIC til og frá útlöndum, segir truflunina hafa varað í tæpar fimmtán mínútur.
Um er að ræða svonefnda DoS-árás (Denial of Service) sem gerð var frá IP-tölum erlendis. Við slíka árás er gerð röð árása með því að senda fjölda falskra skilaboða á vefþjóna fyrirtækisins. Vegna fjölda skilaboðanna hefur vefþjónninn ekki undan. Finna þarf þann aðila sem árásin kemur frá og loka fyrir sambandið frá honum. Það tók skamman tíma, segir Pétur.
Ekki er vitað hvort árásin var runnin undan rifjum innlendra aðila en hún varð gerð úr tölvu með erlendri IP-tölu sem gæti allt eins verið í eigu saklauss þriðja aðila.