Mikil truflun á netsambandi viðskiptavina Og Vodafone

Miklar truflanir hafa verið á netsambandi Og Vodafone til Bandaríkjanna frá því um kl. hálf sex í kvöld og hafa þeir netverjar sem skipta við Og Vodafone því átt í miklum erfiðleikum með að kalla upp erlendar vefsíður í kvöld. Pétur Pétursson, forstöðumaður upplýsinga- og kynningarmála Og Vodafone, sem m.a. sér um flutning gagnaumferðar ISNIC til og frá útlöndum, segir þrjár svonefndar DoS-árásir hafa verið gerðar á netþjón ISNIC.

Um er að ræða svonefndar DoS-árásir (Denial of Service). Við slíka árás er gerð röð árása með því að senda fjölda falskra skilaboða á vefþjóna fyrirtækisins. Vegna fjölda skilaboðanna hefur vefþjónninn ekki undan. Árásin á sjötta tímanum barst frá tölvu með erlendri IP-tölu.

Pétur segir netsamband við útlönd hafa legið niðri fyrst í um fimmtán mínútur, síðan í þrjátíu og loks í um tíu mínútur. Þegar starfsmenn Og Vodafones töldu sig vera búna að loka fyrir umferð frá þeim tölvum þaðan sem árásirnar voru gerðar, kom upp bilun í Teleglobe, netþjónustufyrirtæki Og Vodafones í Bandaríkjunum. Bilunin varð til þess að engin svör bárust vefþjónum Og Vodafone. Starfsmennirnir telja nokkuð öruggt að netsambandið muni haldast áfram í kvöld en þeir munu þó fylgjast sérstaklega vel með netsambandinu í kvöld.

Samkvæmt upplýsingum Og Vodafones er um hálft ár frá því árásir af þessu tagi voru gerðar á vefþjóna fyrirtækisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert