Von á nýjum Half-Life leik

Von er á nýjum Half-Life-tölvuleik í lok september. Fyrsta útgáfa leiksins, sem kom fram árið 1998, er með vinsælustu tölvuleikjum sem komið hafa fram. Sú útgáfa hefur selst í fimm milljónum eintaka og unnið til margra verðlauna. Valve, framleiðandi leiksins segist hafa eytt síðustu fimm árum í gerð hans. Doug Lombardi, markaðastjóri Valve, segist sannfærður um að fyrirtækið hafi ekki eytt þessum tíma til einskis.

BBC segir að leikurinn hafi skapað sér sérstöðu meðal leikjaunnenda, einkum vegna viðbóta eins og Blue Shift og Counter-Strike. Lombardi segir að vinsældir Half-Life 1 og Counter-Strike geri fyrirtækinu kleift að elta uppi glæfralega drauma, en allt að því 30 manns hafa unnið að leiknum að meðaltali um langt skeið. Í framhaldi leiksins þarf vísindamaðurinn Gordon Freeman aftur að berjast gegn hjörð framandi vera.

"Það er fullt af frábærum ævintýraleikjum til staðar, en það sem vekur mesta athygli hjá okkur er sagan sjálf og hvernig við getum náð sambandi við spilendur," segir Lombardi. "Við leitum nýrra leiða og reynum að etja kappi við kvikmyndir, sjónvarp og aðra miðla í stað leikja."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert