Microsoft býður fé til höfuðs tölvuþrjótum

Bandaríska tæknifyrirtækið Microsoft hefur boðist til þess að greiða fyrir upplýsingar sem geta leitt til handtöku tölvuþrjóta og höfunda tölvuveirna sem ógna Windows-stýrikerfinu.

Fyrirtækið hefur meðal annars sagt ætla að borga um 19 milljónir fyrir upplýsingar sem geta leitt til þess að höfundar upphaflegu Blaster og Sobig ormanna verði teknir höndum. Microsoft hefur ákveðið að greiða um 400 milljónir króna fyrir svipaðar upplýsingar á næstu árum, að sögn ananova.com.

Fyrirtækið hefur lagt áherslu á að tryggja aukinn stöðugleika Windows-stýrikerfisins, en það segist ekki hafa efni á að tölvuþrjótar valdi frekari usla með dreifingu á tölvuormum. Blaster og Sobig eru dæmi um orma sem var dreift í fjölda tölva sem keyrðu Windows-stýrikerfið með því að nýta sér veikleika í því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert