CCP kaupir útgáfuréttinn á EVE til baka

Tölvuleikjafyrirtækið CCP hefur keypt til baka útgáfuréttinn á leiknum EVE-Online, sem það seldi bandaríska útgáfufyrirtækinu Simon & Schuster Interactive í apríl 2002.

Simon & Schuster, sem er dótturfyrirtæki Bandaríska fjölmiðlarisans Viacom, keypti útgáfuréttinn á leiknum í Bandaríkjunum, Evrópu og Kanada. Kaupverð er ekki gefið upp.

Sigurður Ólafsson markaðsstjóri CCP segir ástæðu kaupanna þá að Simon & Schuster hafi lagt niður tölvuleikjadeild fyrirtækisins. Hann segir þá staðreynd að útgefandi leiksins hafi lagt upp laupana ófyrirséða og mikil vonbrigði. "Þetta er ekki í samræmi við þann kraft sem virtist búa í þeim þegar við skrifuðum undir samninga við þá í upphafi síðasta árs.

Við seldum dreifingarþáttinn á sínum tíma til að minnka áhættuna í rekstri fyrirtækisins og fengum vel greitt fyrir. Þegar dreifingarfyrirtækið ákveður síðan að hætta starfsemi töldum við vænlegasta kostinn að kaupa útgáfuréttinn til baka til að ná fullri stjórn yfir EVE-online, sem við erum búnir að eyða miklum peningum og tíma í," sagði Sigurður Ólafsson.

"Þetta markar ákveðin tímamót fyrir CCP þar við stjórnum sölu- og markaðssetningu leiksins með ákveðnari hætti en áður og ætlum við að notfæra okkur þau sóknarfæri sem sú staða býður upp á. Frá og með gærdeginum byrjuðum við að bjóða upp á kaup á leiknum í gegnum netið með niðurhleðslu beint til kaupenda, en slíkt var ekki hægt áður þar sem Simon & Schuster höfðu eingöngu selt leikinn í kössum úti í búð og stóðu í vegi fyrir þessari dreifingarleið.

Héðan í frá getur fólk allsstaðar í heiminum hlaðið leiknum niður af heimasíðu leiksins www.eve-online.com gegn gjaldi og byrjað að spila. Greitt er áskriftargjald einu sinni í mánuði sem er 13 Bandaríkjadalir, eða tæpar 1000 krónur."

Sala undir væntingum

Um samkeppnina í flokki fjölþátttökuleikja segir Sigurður að líklega séu um 10-15 leikir af sömu stærðargráðu og EVE-Online í hinum vestræna heimi, þ.e. leikir með 30.000 eða fleiri notendur. Sigurður segir aðspurður að sölutölur fyrirtækisins séu undir væntingum eins og hann orðar það, en segir að salan sé stöðug og bundnar séu miklar vonir við komandi jólaverslun, sem hann segir vera helsta sölutíma tölvuleikja í heiminum.

Starfsmenn CCP eru 30, auk þess sem 30 manns starfa hjá Símanum við þjónustu leiksins allan sólarhringinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert