Philips þróar nýja gerð af linsu

Tæknifyrirtækið Philips Electronics kveðst hafa þróað smágerða myndavélalinsu fyrir farsíma, sem býr yfir sambærilegri skerpustillingu og mannsaugað. Linsan, sem er þrír millimetrar að stærð, er ólík flestum öðrum gerðum af linsum þar sem hún notar ekki hreyfanlega vélahluti heldur tvö lög af vökvum í smágerðri og gegnsærri túpu.

Rafstraumur er notaður til þess að draga annað lagið af vökvanum að rönd túpunnar en hinn vökvinn fyllir upp annan hluta túpunnar. Svæðið þar sem vökvarnir mætast virkar því eins og linsa. Gert er ráð fyrir að hægt sé að nota linsuna fyrir myndavélar í farsímum eða fyrir heimaöryggiskerfi, að sögn Reuters. Linsan verður kynnt til sögunnar á tæknisýningunni CeBIT, sem verður haldin í Hannover í Þýskalandi að tveimur vikum liðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert