Fölsuð BBC-síða sagði að Svíakonungi hefði verði ráðinn bani

Karl Gústaf Svíakonungur.
Karl Gústaf Svíakonungur. AP

Vefsíða, sem átti að líta út fyrir að vera á vegum breska ríkisútvarpsins BBC, greindi frá að Karl Gústaf Svíakonungur hefði verið ráðinn af dögum þar sem hann fylgdist með Ólympíuleikunum í Aþenu í Grikklandi. Á gervisíðunni sagði í fyrirsögn að konungurinn hefði verði skotinn til bana á leið til hótels síns eftir að hafa horft á sigur Svía í borðtenniskeppni í Aþenu í gærkvöldi.

Borðtennisleikurinn var sýndur í sænska sjónvarpinu og þar sáust konungshjónin óska Svíanum Jan-Ove Waldner til hamingju með sigur sinn á mótinu. Sænska dagblaðið Expressen segir að gervisíðan hafi borist til ótilgreindra Hotmail póstfanga. Elisabeth Tarras-Wahlberg, talsmaður sænsku hirðarinnar, segir síðuna ósmekklega og ganga út fyrir öll velsæmismörk.

Auk annarra frétta á BBC gervisíðunni var jafnframt að líta fréttir frá Najaf í Írak og Ólympíuleikunum til þess að auka á trúverðugleika síðunnar. Sænska konungsfjölskyldan hefur áður þurft að þola rangar fréttir um dauða sinn eða veikindi. Má þar nefna útsendingu frá sænskri útvarpsstöð í mars sem greindi ítrekað frá því að hinn 58 ára gamli konungur væri látinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert