IBM innkallar hálfa milljón gamalla straumbreyta

IBM hefur tilkynnt að fyrirtækið muni innkalla 553.000 straumbreyta fyrir nokkrar tegundir fartölva, vegna eldhættu og hættu á raflosti. Um er að ræða straumbreyta fyrir IBM ThinkPad i-tölvur, ThinkPad 390 og 240-tölvur og takmarkaðan fjölda ThinkPad s-tölva. Straumbreytarnir voru seldir með tölvunum og einnig í lausu á tímabilinu janúar 1999 til ágúst 2000.

Vörunúmerið á straumbreytunum er 02K6549. Neytendavernd Bandaríkjanna hefur að sögn fengið sex tilkynningar um óhöpp vegna straumbreytanna, en ekkert þeirra fól í sér meiðsli á fólki. Eigendum umræddra straumbreyta er ráðlagt að taka þá úr sambandi og hafa samband við IBM til að fá nýja, en það er hægt í gegnum vefinn adapterprogram.com.

Ekki í tölvum seldum hér á landi

Að sögn Friðriks Snorrasonar hjá Nýherja er hér um gamlar tölvur að ræða og segir hann að eftir athugun hjá fyrirtækinu verði ekki betur séð en að téðir straumbreytar hafi ekki verið í IBM-fartölvum sem seldar voru hér á landi á 1999 og 2000 né síðar.

Friðrik segir hins vegar að ekki sé hægt að útiloka að þeir finnist í tölvum sem Íslendingar kunni að hafa keypt í Bandaríkjunum á framangreindu tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert