Fólk geispar af ýmsum ástæðum, syfju, leiðindum, taugaveiklun og stundum vegna þess að það hefur séð einhvern annan geispa. Geispi er smitandi. Nú hefur í fyrsta sinn komið í ljós að þetta á einnig við hjá annarri dýrategund, nefnilega simpönsum.
Dr. James Anderson, við Háskólann í Stirling í Skotlandi, og japanskir samstarfsmenn hans sýndu fram á, að þriðji hver simpansi sem sýnt var myndband af geispandi simpönsum fór sjálfur að geispa. Frá þessu greinir kanadíska blaðið National Post nýlega.
Ekki er vitað með vissu hvers vegna geispi er smitandi meðal manna, en nýlegar rannsóknir benda til að þau rúmlega 50% fólks sem er gjarnt á að smitast af geispa eigi auðveldara með að sýna hluttekningu og þekki sjálft sig betur en hinir.
Anderson segir vísbendingar vera um að simpansar geti sýnt hluttekningu og kveðst sjálfur hafa séð þegar simpansi þekkti sjálfan sig í spegli.
Eftir að niðurstöður Andersons og félaga birtust í vísindaritinu Biology Letters fékk hann tölvuskeyti frá hundaeigendum sem fullyrtu að þeir hefðu skipst á geispum við þessa ferfættu vini sína.