Mikil streita hrjáir marga Breta á leið í og úr vinnu

Breskir sérfræðingar hafa komist að því, að margt fólk þjáist af meiri streitu á leið sinni í og úr vinnu en orrustuflugmenn finna fyrir í bardaga eða óeirðalögreglumenn í átökum.

Borinn var saman hjartsláttur og blóðþrýstingur hjá 125 launþegum sem fara daglega í og úr vinnu og flug- og lögreglumönnum við æfingar.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC.

Í sumum tilvikum við verstu aðstæður var streitan hjá launþegunum meiri, og sú tilfinning þeirra að þeir geti engu ráðið um aðstæður gerir illt verra.

David Lewis, sérfræðingur í streiturannsóknum, tjáir BBC að munurinn sé sá, að orrustuflugmenn og óeirðalögreglumenn hafi eitthvað að gera og það dragi úr streitunni sem aðstæðurnar valdi.

En fólk sem er á leið milli staða, sérstaklega ef það er um borð í lest, „getur nákvæmlega ekkert gert“, segir Lewis. Segir hann þetta gera fólk „óþolinmótt, áhyggjufullt og örvilnað“.

Ekki liggur fyrir hvort þetta hefur skaðleg áhrif á heilsuna til lengri tíma litið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert