Rússneskir vísindamenn eru nú að leita sjálfboðaliða sem lokaðir verða inni í hylki í 500 daga til að líkja eftir aðstæðum við geimför til Mars. Sex manns verða valdir til þátttöku í tilrauninni.
Þeir verða lokaðir af frá umheiminum allan tímann á meðan prófaður verður tækjabúnaður sem á að sjá þeim fyrir viðurværi alla leiðina.
Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC.
Tækin í geimhylkinu eiga að framleiða súrefni fyrir áhöfnina, endurvinna aftur og aftur þrjú tonn af vatni og rækta matvæli til viðbótar við þær fimm tonna birgðir sem verða um borð.
Í hylkinu verður svefnherbergi, eldhús og rannsóknastofa.
Tilraunin, sem gerð verður í Moskvu, er liður í áætlun er miðar að því að gera langar geimferðir og landnám í geimnum mögulegt.
En það er langt þangað til lagt verður upp til Mars. Enn hafa einungis verið valdir tveir sjálfboðaliðar, en alls eiga þeir að verða sex, og tilraunin mun ekki hefjast fyrr en á þarnæsta ári.