Bandaríska hugbúnaðarfyrirtækið Microsoft Corp. býður nú ókeypis forrit sem hægt er að nota til að fjarlægja hættulegustu tölvuveirurnar úr tölvum. Microsoft áformar að selja fullkomið veiruvarnaforrit síðar á þessu ári.
Frá og með deginum í dag geta tölvunotendur hlaðið niður nýja forritinu af heimasíðu Microsoft. Þá verða ókeypis uppfærslur boðnar mánaðarlega. Microsoft býður einnig hugbúnað til að fjarlægja svonefnd njósnaforrit, sem fylgjast með netnotkun.
Microsoft segir að forritið geti ekki komið í veg fyrir sýkingar og því sé ekki ætlað að koma í stað hefðbundinna veiruvarnaforrita. En einn af framkvæmdastjórum Microsoft staðfesti, að fyrirtækið áformaði að setja eigin veiruvarnaforrit á markað sem myndi keppa við önnur slík forrit.
Microsoft keypti á síðasta ári rúmenskt fyrirtæki, GeCAD Software Srl., sem hefur sérhæft sig í veiruvörnum.