Árið 2005 einkennist af „lýðræðisþróun“ í notkun raftækja

Fjölmargir gestir koma á árlega raftækjasýningu fyrir neytendur í Las …
Fjölmargir gestir koma á árlega raftækjasýningu fyrir neytendur í Las Vegas. AP

Árið 2005 verður ár „lýðræðisþróunar“ í notkun raftækja, þannig að notendur munu hafa aukið val um hvenær, hvar og hvað þeir horfa eða hlusta á, ef marka má ummæli Jeffs Joseph, starfsmanns hjá neytendasamtökunum CEA. Samtökin standa fyrir sýningu ár hvert þar sem reynt er að varpa ljósi á þær tækninýjungar sem verða hvað mest áberandi á árinu. Búist er við um 120 þúsund gestum á sýninguna í ár, sem er í Las Vegas, en sýningarsvæðið er um 500 þúsund fermetrar að flatarmáli.

Joseph segir að árið 2005 muni snúast um stafræna tækni og hvernig hún er að gjörbreyta öllum vörum og meðferð fólks á þeim. „Þetta snýst um að gera tæknina persónulega - gera sinn eigin lagalista á MP3-spilara, geta horft á hvað sem mann langar, hvenær sem er í stafrænum myndbandstækjum. Fólk er ekki lengur háð duttlungum þeirra sem senda út,“ sagði Joseph.

Samtökin segja árið 2004 hafa verið mjög gott varðandi raftæki, sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem vöxturinn var hvað mestur. Sendingar á rafeindatækjum jukust um 11% á árinu miðað við 2003 og er búist við því að þessi þróun haldi áfram í ár. Talið er að útlit tækjabúnaðar skipti æ meira máli og þar litu framleiðendur til iPod-spilarans frá Apple.

Samtökin spá því að talsverð þróun muni eiga sér stað varðandi tölvuleiki og notendum þeirra fjölga, einkum meðal kvenna. Meira en 52% bandarískra heimila eru orðin nettengd og áætla samtökin að mikil aukning verði í notkun kvikmyndaveitna þar sem notandinn getur valið sér þær myndir sem hann vill horfa á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert