Rannsóknir sýna að sjálfsmorðum í Bretlandi fjölgar með hækkandi sól. Vísindamenn þar í landi telja að orsakanna megi leita í breytingum á boðskiptum í heila sem verða við árstíðaskiptin.
Samkvæmt fréttavef Sky hækkar tíðni sjálfsmorða með vorinu og nær hún hámarki í maí. Forsvarsmaður rannsóknarinnar segir að þeir sem þjáist af þunglyndi taki líf sitt þegar sól hækkar á lofti. Hann segir einn einstakling fremja sjálfsmorð í landinu á hverjum 84 mínútum, sem er um 6,300 einstaklingar á hverju ári. Hann bendir á að rannsóknir á Norðurlöndunum og í Kanada sýni að þeir sem taki líf sitt skorti seratón, sem er boðefni í heila og tengist geðsveiflum. Seratónið eykst í beinu hlutfalli við sólarljósið og veldur það því að einstaklingar láti fremur stjórnast af tilfinningum sínum.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar eru karlmenn á aldrinum 25 til 34 ára líklegri til að fremja sjálfsmorð. Algengasti aldur kvenna er hins vegar 45 til 54 ára.