Stúlkum sem hafa alist upp við söguna um Öskubusku og önnur viðlíka ævintýri er hættara við því að lenda í ofbeldissamböndum síðar á ævinni, að því er breskur hugvísindamaður segir. Í rannsókn sem gerð var í Leicester á Englandi er því haldið fram að stúlkur sem lásu ævintýri sem börn séu líklegri til að verða undirgefnar þegar þær fullorðnast.
Könnuð voru viðhorf foreldra skólabarna og kvenna sem sætt hafa ofbeldi. Í rannsókninni segir að mörg fórnarlömb heimilisofbeldis samsami sig persónum í frægum ævintýrum, og fullyrt að í þessum sögum sé að finna „uppskriftir“ að konum sem drottnað sé yfir.
Það var Susan Darker-Smith, framhaldsnemi í sálfræði við Háskólann í Derby, sem gerði rannsóknina. Michael Townsend, lektor í sálfræði við sama skóla, segir: „Það er vitað að sögur eru mikilvægur grundvöllur hugmynda barna um sjálf sig og sambönd við annað fólk.“
Frá þessu greinir suður-afríski fréttavefurinn News24.com.
Darker-Smith mun kynna niðurstöður sínar á sálfræðiráðstefnu í Gautaborg í næsta mánuði. Townsend segir niðurstöðurnar áhugaverðar, og fullvíst sé að þær muni vekja athygli. Nauðsynlegt sé að fylgja þeim eftir með frekari rannsóknum.