Sjúkdómar sem raktir eru til ofþyngdar auka sífellt kostnað við heilbrigðiskerfi vestrænna ríkja, að því er fram kemur í frétt danska blaðsins Politiken. Þar segir að sjúkdómar sem orsakast af ofþyngd reynist heilbrigðiskerfum ríkjanna jafndýrir og samanlagður kostnaður vegna sjúkdómar sem hljótast af ofneyslu áfengis, reykingum og elli.
Þetta kemur fram í rannsókn Anne Wolf, bandarísks vísindamanns sem starfa við Virginia School of Medicine.
Í frétt Politiken segir að ofþyngd og veruleg ofþyngd auki hættu á sykursýki, hjarta- og vöðvasjúkdómum. Danska ríkisstjórnin ákvað í janúar síðastliðnum að leggja 83 milljónir danskra króna í herferð sem standa á næstu fjögur ár í Danmörku gegn offitu. Upphæðin samsvarar rúmum 904 milljónum íslenskra króna.
Offita er mikið vandamál í Danmörku. Um 1,7 milljónir Dana eru of þungir og of þungu fólki fer fjölgandi í landinu. Frá árinu 1987 hefur of þungum Dönum fjölgað um 75%.
Víðar í hinum vestræna heimi er ofþyngd vandamál. Um 30% allra fullorðinna Bandaríkjamanna eru annaðhvort of þungir eða langt yfir kjörþyngd. Í Evrópu eru á bilinu 10-20% allra karla of þungir og á bilinu 10-25% kvenna.