Kjarnasamrunaofni valinn staður í Frakklandi

Inn á þessa mynd hefur verið teiknaður væntanlegur kjarnasamrunaofn, og …
Inn á þessa mynd hefur verið teiknaður væntanlegur kjarnasamrunaofn, og nærliggjandi byggingar, til viðbótar aðstöðu sem þegar er fyrir hendi í Cadarache. AP

Alþjóðlegt félag hefur valið ofni sem nota á til tilrauna með kjarnasamruna stað í Frakklandi, skammt frá Aix-en-Provence, að því er fulltrúi Evrópusambandsins greindi frá í dag. Markmið tilraunanna er að búa til hreina orku sem aldrei gengur til þurrðar.

Ákvörðun um staðsetninguna var tekin á lokuðum fundi í Moskvu, en aðilar að félaginu eru Evrópusambandið, Japan, Bandaríkin, Suður-Kórea, Rússland og Kína. Deilur hafa staðið milli þeirra um staðsetningu tilraunaofnsins, enda mikið í húfi: Margir milljarðar í rannsóknastyrki, uppbygging fyrir milljarða og hátt í 100.000 ný störf.

Japanir, Bandaríkjamenn og Suður-Kóreumenn vildu að ofninn yrði byggður í Japan, en Rússar, Kínverjar og Evrópusambandið að hann yrði staðsettur í Cadarache í Suður-Frakklandi, og varð það úr.

Með ofninum (International Thermonuclear Experimental Reactor, ITER) á að sýna fram á að með kjarnasamruna, sem felur í sér beislun samskonar orku og hitar sólina, verði hægt að leggja af brennslu jarðefnaeldsneytis, sem mengar andrúmsloftið, og nota í stað hreina orku. Við kjarnasamruna, sem felur í sér að tveir léttir kjarnar eru sameinaðir til myndunar eins þungs og þar með losuð mikil orka, myndast engar gróðurhúsalofttegundir og aðeins lítið magn geislavirks úrgangs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert