Undanfarið ár hefur tíðni offitutilfella í 48 ríkjum Bandaríkjanna og á landsvísu hækkað úr 23,7% í 24,%, samkvæmt nýrri rannsókn samtakanna Trust for America's Health. Í tíu ríkjum er rúmlega fjórði hver fullorðinn nú of feitur, þrátt fyrir herta baráttu gegn offitu og kvikmyndir á borð við Supersize Me.
Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC.
Trush for America's Health eru óháð samtök, og segja þau í tilkynningu að ástandið sé orðið grafalvarlegt og núverandi opinber stefna í þessum efnum hafi algerlega brugðist. Nú séu 119 milljónir Bandaríkjamanna, eða 64,5% fullorðinna, of þungar eða haldnar sjúklegri offitu.
Samtökin segja að samkvæmt spám verði þetta hlutfall komið í 73% árið 2008. Þessu muni fylgja mikil fjölgun offitutengdra sjúkdóma á borð við sykursýki og hjartakvilla, sem kosta muni hið opinbera milljónir dollara.
Offitutilfelli eru tíðust í Mississippi, Alabama og Vestur-Virginíu. Einungis í Oregon fjölgaði tilfellunum ekki. Hawaii var ekki tekið með í rannsókninni.
Bresk samtök sem berjast gegn offitu segja að þróunin sé sú sama í öðrum vestrænum ríkjum. Offitutilfellum fari fjölgandi í Bretlandi ár frá ári, líkt og í Bandaríkjunum. „Við vitum að við erum ekki nema um það bil sjö árum á eftir [Bandaríkjamönnum],“ sagði formaður bresku samtakanna.