11 ára gömlum dreng hefur verið bannað að keyra bíl í heilt ár, eftir að hafa verið stöðvaður þar sem hann ók BMW bifreið í bænum Andover í Hampshire á Englandi í ágúst. Lögregla gaf bílstjóranum merki um að stöðva vegna þess að hann var ljóslaus, en við það fór hann yfir á öfugan vegarhelming og var næstum búinn að aka á ljósastaur, að því er fram kemur á fréttavef BBC.
Þegar lögreglumönnum hafði tekist að stöðva ferð drengsins sagðist hann eiga bílinn og að hann vissi ekki að hann þyrfti ökuskírteini til að keyra hann. Hann sagðist hafa skipt á litlu mótórhjóli og bílnum við mann sem hann hitti í Winchester.
Drengurinn viðurkenndi fyrir dómi að hafa keyrt án nægilegrar aðgæslu og án þess að hafa ökuskírteini og tryggingar. Hann fékk þrjá refsipunkta fyrir að keyra án ökuskírteinis og sex fyrir að vera án tryggingar.