Hanna sex þúsund króna fartölvu handa börnum um allan heim

Negroponte kynnir sex þúsund króna fartölvuna í dag.
Negroponte kynnir sex þúsund króna fartölvuna í dag. AP

Vísindamenn við Massachusetts Institute of Technology í Bandaríkjunum kynntu í dag fartölvu sem þeir eru að hanna og á ekki að kosta nema hundrað dollara, eða rúmar sex þúsund krónur. Hugmyndin er að börn um heim allan geti eignast slíkan grip og þannig notið kosta Netsins. Verður tölvan m.a. búin handsveif þannig að hægt verði að nota hana þar sem rafmagn er ekki að hafa.

Við hönnun tölvunnar er lögð megináhersla á að hún verði sterkbyggð, sveigjanleg og sjálfstæð. Rafmagnssnúran á henni gegnir líka hlutverki axlarólar, og ef ekkert rafmagn er að hafa verður tölvan búin handsveif til að hlaða rafhlöðuna. Hægt verður að leggja tölvuna saman á fleiri vegu en hefðbundnar fartölvur svo að sem minnst geti farið fyrir henni.

Ysta lag tölvunnar verður úr gúmmíi því að hún á að „geta þolað bókstaflega allt“, sagði Nicholas Negroponte, framkvæmdastjóri Miðlunardeildar MIT, sem kynnti hönnunina í dag. Negroponte fékk hugmyndina að tölvunni þegar hann sá börn í þorpi í Kambódíu nota fartölvur í skólanum og taka þær síðan með sér heim.

Það var stofnun sem Negroponte og kona hans reka, One Laptop Per Child, sem hafði gefið börnunum í Kambódíu tölvur og komst Negroponte að þeirri niðurstöðu að til að börn um allan heim gætu notið kosta Netsins yrði að búa til fartölvur sem væru svo ódýrar að þróunarríki gætu keypt þær í stórum stíl.

Frumgerðin er ekki væntanleg fyrr en í nóvember. Til að draga úr hugbúnaðarkostnaði verða þær búnar Linux-stýrikerfi, sem er ókeypis. Til að byrja með er reiknað með að snúa þurfi handsveifinni í um eina mínútu til að fá tíu mínútna notkunartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert