Áströlunum Barry J. Marshall og Robin Warren voru í morgun veitt Nóbelsverðlaunin í læknisfræði 2005 fyrir þátt þeirra í uppgötvuninni á bakteríunni heliobacter pylori, sem hefur áhrif á myndun magabólgu og magasára. Nóbelsnefndin sagði í tilkynningu sinni að það væri Marshall og Warren að þakka að magasár væri ekki lengur krónískur og hamlandi sjúkdómur heldur kvilli sem unnt væri að lækna á tiltölulega skömmum tíma.
Um rannsóknir Marshalls og Warren sagði Nóbelsnefndin ennfremur: „Warren, sem er meinafræðingur frá Perth í Ástralíu, tók eftir litilum bogmynduðum bakteríum sem höfðu lagt undir sig neðri hlutann í maga um 50% sjúklinga sem lífsýni höfðu verið tekin úr. Það sem úrslitum réði var að hann áttaði sig á því að merki um bólgur var í öllum tilvikum að finna í magaslímhúðinni örskammt frá þar sem bakterían sást.“
Marshall fékk áhuga á niðurstöðum Warrens og saman hófu þeir rannsóknir á lífsýnum úr eitt hundrað sjúklingum. „Eftir nokkrar tilraunir tókst Marshall að rækta áður óþekkta bakteríutegund - sem síðar fékk nafnið Heliobacter pylori - úr allmörgum þessara sýna. Saman komust þeir að því að bakteríuna var að finna í svo að segja öllum sjúklingum sem haldnir voru af magabólgum, skeifugarnarsárum eða magasárum. Á grundvelli þessara niðurstaðna settu þeir frá þá tilgátu að heliobacter pylori eigi þátt í myndun þessara kvilla,“ sagði nefndin ennfremur.
Marshall og Warren notuð hefðbundna tækni á borð við magaspeglun til að komast að þeirri niðurstöðu að heliobacter pylori væri í mörgum tilvikum orsök magasára. Með því að rækta bakteríuna auðvelduðu þeir frekari rannsóknir á henni.
„Árið 1982, þegar Marshall og Warren fundu þessa bakteríu, var almennt talið að streita og lífsstíll væru helstu orsakir magasára. Nú er aftur á móti staðfest að heliobacter pylori veldur yfir 90% skeifugarnarsára og 80% magasára,“ sagði Nóbelsnefndin. Vefur Nóbelsnefndarinnar