Minni líkur eru á því að fá krabbamein af kannabisreykingum heldur en af venjulegum tóbaksreykingum, samkvæmt niðurstöðum nýrrar bandarískar rannsóknar. Robert Melamede, prófessor í háskólanum í Colorado, segir að þótt kannabisefni og tóbak séu efnafræðilega lík, þá sé tóbak líklegra til að valda krabbameini, að því er fram kemur á fréttavef BBC.
Melamede segir að munurinn stafi fyrst og fremst af nikótíninu í tóbaki, á meðan efnið THC í kannabisefnum geti hreinlega komið í veg fyrir krabbamein.
Þó er talið að kannabisefni geti valdið ýmsum heilsutengdum vandamálum, til dæmis öndunarerfiðleikum og þunglyndi. Vísindamenn hafa hins vegar rannsakað hvort nota megi kannabisefni í lækningaskyni, til dæmis í baráttunni við MS sjúkdóminn og alzheimer, og hefur það gefið góða raun.
Melamede heldur því fram að á meðan nikótín geti verið krabbameinsvaldandi, þá hafi efnið THC komið í veg fyrir að krabbamein myndist í músum. „Það hefur sýnt sig að efnasamsetningar sem fundist hafa í kannabisefnum hafa drepið ýmsar tegundir krabbameins, svo sem lungna-, brjósta-, blöðruhálskirtils-, húð-, og eitlakrabbamein, auk hvítblæðis,“ segir Melamede. Hann benti þó á að áhrifin af kannabisefnum geta verið margvísleg og að rannsóknir hafi sýnt fram á að THC í litlu magni geti örvað vöxt krabbameinsfrumna í lungum.
„Það getur verið að eftir því sem sú kynslóð sem nú reykir kannabisefni eldist, þá muni koma í ljós að langtímaáhrif kannabisefna séu svipuð áhrifum af tóbaksreykingum,“ segir Melamede. „Þrátt fyrir það benda rannsóknir í dag til þess að kannabisreykur hafi ekki krabbameinsvaldandi áhrif sem sambærileg eru við tóbaksreyk, segir Melamede að lokum.“