Konur sem hafa mikið estrógen þykja fallegri

Ný rannsókn bendir til að konur sem hafa mikið magn kynhormónsins estrógen þyki hafa fallegra andlit en þær sem hafa minna af hormóninu. Vísindamenn við Háskólann í St Andrews í Skotlandi, sem gerðu rannsóknina, segja að frá þróunarlegu sjónarhorni sé vit í þessu - útlitið gefi með þessum hætti vísbendingu um frjósemi.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC, en niðurstöður rannsóknarinnar birtast í tímariti Konunglega vísindafélagsins í Bretlandi.

Vísindamennirnir segja að estrógenmagn í líkamanum á kynþroskaskeiði geti haft áhrif á útlit með því að stýra að einhverju leyti vexti beina og húðáferð. Rannsókn þeirra leiddi aftur á móti einnig í ljós, að andlitsfarði dregur úr þessum mun, þannig að konur sem ekki hafi þetta „hormónaútlit“ geti bætt sér það upp með farða.

Rannsóknin fór þannig fram að teknar voru ljósmyndir af andlitum 59 ungra kvenna á aldrinum 18-25 ára og jafnframt var estrógenmagn í líkama þeirra mælt. Síðan voru 30 sjálfboðaliðar beðnir að segja til um hversu aðlaðandi þeim þættu konurnar. Bæði konur og karlar í sjálfboðaliðahópnum sögðu andlit kvennanna sem höfðu mest magn af estrógeni vera mest aðlaðandi.

En þegar sjálfboðaliðunum voru sýndar myndir af konunum með andlitsfarða reyndust engin tengsl vera á milli mats á útliti þeirra og estrógenmagns í líkama þeirra.

Stjórnandi rannsóknarinnar, Miriam Law Smith, sagði: „Konur auglýsa eiginlega frjósemi sína með andliti sínu ... Þessar niðurstöður kunna að útskýra hvers vegna karlmenn virðast almennt fremur laðast að konum sem hafa klassíska kvenlega andlitsdrætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert