Tónlistardeild Sony hefur verið sökuð um að hafa leitað í smiðju vírusahöfunda til að koma í veg fyrir að tóndiskar sem hún gefur út séu afritaðir með ólöglegum hætti. Haft er eftir kóðaranum Mark Russinovich að ein afritunarvörn sé falin í dulbúnum skjölum djúpt í Windows-stýrikerfinu og erfitt sé að eyða henni. Segir Russinovich að varnir Sony séu komnar „út í öfgar“.
Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC.
Sony hefur svarað gagnrýni á þá leið að fyrirtækið muni láta neytendum í té búnað sem sýnir földu skjölin. Russinovich er kunnur Windows-forritari. Hann rakst á afritunarvarnarforrit Sony þegar hann var að skanna tölvuna sína með tæki sem hann er sjálfur einn höfundanna að og leitar uppi svonefndar rótarsamstæður.
Rótarsamstæður eru notaðar til að fela vírusa sem komið hefur verið fyrir og eiga þær að verja þá fyrir vírusvarnarforritum. Ýmsir vírusahöfundar eru farnir að nota rótarsamstæður til að fela stykkin sín djúpt í Windows þar sem þau fara framhjá flestum vírusleiturum.
Það sem Russinovich fann líktist í fyrstu vírus, en við nánari athugun kom í ljós að þarna var um að ræða afritunarvörnina Extended Copy Protection (XCP), sem breska hugbúnaðarfyrirtækið First 4 Internet bjó til. Samkvæmt því sem Sony segir er þetta aðeins eitt að mörgum varnarkerfum sem fyrirtækið er að prófa, en alls hafi verið seldar yfir tvær milljónir tóndiska með þessu kerfi.
Russinovich segir á bloggsíðu sinni að þessi „óbúnaður“ sé illa skrifaður og gefi engan kost á að hann sé fjarlægður. Hann segir ennfremur að hætta sé á því að hreinlátir tölvunotendur rekist á búnaðinn, haldi að um vírus sé að ræða og ráðist í að fjarlægja hann með öllum tiltækum aðferðum og geri þar með tölvur sínar óstarfhæfar.
BBC hefur eftir lögfræðingi sem er sérfræðingur í netrétti að ef Sony hafi selt diska með XCP-búnaði í Bretlandi gæti fyrirtækið átt yfir höfði sér málssókn á þeim forsendum að það hafi gert breytingar á tölvum viðskiptavinanna án þess að spyrja þá leyfis.