Breskur karlmaður virðist hafa læknast af HIV-smiti

Læknar áforma að gera frekari rannsóknir á breskum karlmanni, sem virðist hafa læknast af HIV-smiti sem veldur alnæmi. Tvö bresk blöð skýra frá því í dag, að maðurinn, sem heitir Andrew Stimpson og er 25 ára, hafi greinst með HIV-veiruna árið 2002 en hún hafi verið horfin úr líkama hans rúmu ári síðar. Hann tók engin lyf vegna HIV-smitsins.

Fram kemur á fréttavef BBC, að Chelsea and Westminster Healthcare NHS stofnunin hafi beðið Stimpson að gangast undir frekari próf en sérfræðingar segja, að málið geti varpað nýju ljósi á alnæmi.

BBC segir, að áður hafi borist óstaðfestar fréttir af því að fólk í Afríku hafi læknast af HIV-smiti en þetta tilfelli virðist vera staðfest.

Blöðin News of the World og The Mail on Sunday hafa eftir Stimpson, að hann telji sig einn heppnasta mann í heimi. Hann segist hafa orðið þunglyndur þegar honum var sagt að hann væri HIV-smitaður og íhugað sjálfsmorð. Hann hafi hins vegar ekki fundið fyrir neinum sjúkdómseinkennum og ekki tekið lyf. 14 mánuðum síðar gekkst hann að nýju undir rannsóknir og þá fundust engin merki um veiruna. Þegar hann ætlaði að krefjast bóta fyrir ranga sjúkdómsgreiningu var honum sagt, að hann ætti engan rétt á bótum vegna þess að ekkert væri að athuga við rannsóknirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert