Nýja Xbox leikjatölvan kemur á markað á morgun

Þúsundir tölvuleikjaunnenda komu saman þegar Microoft kynnti Xbox 360 leikjatölvuna …
Þúsundir tölvuleikjaunnenda komu saman þegar Microoft kynnti Xbox 360 leikjatölvuna í Palmdale í Mojave-eyðimörkinni í gær. AP

Nýja Xbox 360 leikjatölvan frá tölvurisanum Microsoft kemur á markað í Bandaríkjunum á morgun. Að sögn fyrirtækisins markar tölvan tímamót í gerð tölvuleikja en hönnuðir hjá Microsoft segja myndvinnslu leikjanna raunverulegri en þekkst hefur fram til þessa. Leikjatölvan, sem er silfurlituð, kemur á markað í Evrópu 2. desember næstkomandi og í Japan skömmu síðar. Nýja PlayStation 3 leikjatölvan kemur ekki á markað fyrr en í vor en ný tölva frá Nintendo ekki fyrr en síðar á næsta ári.

Að sögn Michaels Gartenbergs, tæknilegs ráðgjafa, er talið líklegt að Microsoft nái töluverðu forskoti á hina tvo tölvuleikjaframleiðendurna með því að setja tölvuna á markað fyrir jólin. Enda er eftir miklu sækjast en velta á tölvuleikjamarkaðnum er um 25 milljarðar dollara. „Þetta er stríð sem mun vara í nokkur ár,“ sagði hann.

Að sögn breska ríkisútvarpsins er nýjasta leikjatölvan frá Microsoft sú kraftmesta sem sést hefur á tölvuleikjamarkaðnum. Hún mun þó nýtast til fleiri verka en til leiks eingöngu því hún er með diskadrif sem gerir notendum kleift að nota hana til að spila hljómdiska, skoða diska með ljósmyndum á og njóta DVD-mynda. Tölvan er í tveimur verðflokkum. Búist er við að dýrari tölvan kosti tæpar 25.000 krónur en sú ódýrari um 18,500 krónur. Þá er einnig búist við að leikir í nýju tölvuna muni kosta meira en þeir leikir sem nú þegar eru til.

Þrátt fyrir að tölvan þyki í dýrari kantinum býst Microsoft við að selja um 3 milljónir eintaka af leikjatölvunni um allan heim á næstu þremur mánuðum. Fyrsta leikjatölva Microsoft, Xbox-ið, sem kom á markað árið 2001, hefur á síðastliðnum fjórum árum selst í 20 milljónum eintaka. Með því að setja nýju tölvuna á markað fyrir jólin hyggst fyrirtækið skjóta keppinautum sínum ref fyrir rass en fram til þessa hefur PlayStation 2 leikjatölvan selst í 90 milljónum eintaka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert