Óánægður eigandi Xbox 360 höfðar mál gegn Microsoft

Nýja Xbox 360 leikjatölvan frá Microsoft.
Nýja Xbox 360 leikjatölvan frá Microsoft. AP

Maður í Illinois í Bandaríkjunum höfðaði mál gegn Microsoft á föstudag í síðustu viku vegna nýrrar leikjatölvu fyrirtækisins, Xbox 360. Segir maðurinn hönnunargalla á leikjatölvunni, en rafmagnsinntak hennar og örgjörvi eigi það til að ofhitna með þeim afleiðingum að tölvan frýs. Microsoft hefur sett upp vefsíðu þar sem fram koma 10 algengustu gallarnir sem komið hafa upp í leikjatölvunni

Nýja leikjatölvan frá Microsoft er sögð marka tímamót í hönnun tölvuleikja, en hún er með stærri örgjörva og betri myndvinnslu en gengur og gerist.

Fyrstu tilkynningarnar um bilun í leikjatölvunni bárust fljótlega eftir að tölvan kom á markað 22. nóvember síðastliðinn. Greindu nokkrir eigendur tölvunnar frá því á spjallþráðum netverja að tölvur þeirra hafi bilað oftsinnis og tóku sumir þeirra bilunina upp á myndband.

Molly O'Donnell, talsmaður Microsoft, sagði hins vegar, að fyrirtækinu hafi einungis borist fáeinar kvartanir frá óánægðum viðskiptavinum. Sagði hún að hægt væri að gera ráð fyrir því, að bilun komi upp í tækniafurð, sem búin hafi verið til í jafn miklu magni og Xboxið.

Microsoft hefur sett upp leiðbeiningar á vefsíðu fyrirtækisins þar sem fram koma 10 vandamál sem komið hafa upp í notkun Xbox leikjatölvunnar. Eru þar leiðbeiningar fyrir þá sem vilja laga gallana sjálfir fremur en að fá einhvern annan til þess. Þá hefur fyrirtækið boðist til að laga gallaðar leikjatölvur eigenda í Bandaríkjunum eða skipta þeim út fyrir nýjar.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert