Fjarstýrð klósett

Bandarískt fyrirtæki hefur nú sett á markað hina fullkomnu gjöf handa þeim sem eiga allt. Fjarstýrt klósett. Það kostar sem svarar tæplega 400.000 krónur. Þegar maður nálgast það lyftist lokið, og ef maður stendur við það lyftist setan. Þegar öllu er lokið skolast sjálfkrafa niður og lokið fellur að.

Frá þessu greinir Ananova.com og hefur eftir blaðinu Arizona Republic. Framleiðandinn heitir Toto og klósettið heitir Neorest.

Með fjarstýringunni má ennfremur stýra hitanum á setunni og láta klósettið hreinsa varlega. Stöng gengur út úr aftari brúninni og sprautar vatni upp. Stefnu vatnsins og hita stjórnar sá sem situr á klósettinu. Í kjölfarið fylgir síðan blástur sem þurrkar.

Neorest hefur ekki beint rokið út eins og heitar lummur - það þykir helst til dýrt. En ýmsir frægir í Hollywood hafa heillast af því, þeirra á meðal Will Smith, sem hélt ekki vatni yfir því í viðtali við Access Hollywood. Ennfremur hafa Neorest verið sett upp í höfuðstöðvum Google.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert