Enn vandræði með X-boxið

Úr kvikmyndinni King Kong.
Úr kvikmyndinni King Kong. mbl.is

Þeir sem vilja fá sem mest út úr því að spila nýja King Kong tölvuleikinn ættu ekki að spila hann í Xbox 360 leikjatölvunni frá Microsoft. Þetta segir Yves Guillemot, yfirmaður Ubisoft, fyrirtækisins sem framleiddi leikinn. Guillemot segir leikinn of dökkan fyrir hefðbundinn sjónvarpsskjá sem geri það að verkum, að óþægilegt er að spila hann.

„Ég er nokkuð vonsvikinn yfir því að við tókum ekki eftir þessu þegar við hönnuðum leikinn,“ sagði hann í samtali við breska ríkisútvarpið en leikurinn var þróaður með háskerpusjónvarp í huga.

Leikurinn, sem unninn var í náinni samvinnu með Peter Jackson, leikstjóra samnefndrar kvikmyndar sem byrjað er að sýna kvikmyndahúsum, hefur fengið ágæta dóma þar sem hann er sagður ná vel anda myndarinnar. Þá hefur hann selst vel í Bretlandi þrátt fyrir gallann og er fjórði mest seldi tölvuleikurinn þar í landi.

Með það fyrir augum að hámarka sölu leiksins bjó Ubisoft leikinn til fyrir fleiri gerðir leikjatölva en hann er einnig hægt að fá fyrir PlayStation 2 leikjatölvur, GameCube og einmenningstölvur (PC).

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert