11 ára drengur gerði við minniskort leikjatölvu

Eftir Sigurð Pálma Sigurbjörnsson siggip@mbl.is
SINDRI Páll Andrason, 11 ára drengur í Reykjavík, varð fyrir því óláni nú fyrir skömmu að minniskort í Playstation-leikjatölvu hans bilaði. Ekki reyndist hægt að gera við kortið en Sindri dó ekki ráðalaus heldur gerði við kortið sjálfur:

"Ég var búinn að nota kortið mikið og hafði tekið það ógætilega úr tölvunni þegar það hætti að virka. Ég fór því með kortið í viðgerð en komst að því að ekki var gert við slík kort," segir Sindri en minniskort af þessu tagi notar hann til að vista stöðu sína í tölvuleikjum svo ekki þurfi að byrja upp á nýtt í hvert skipti sem leikur er spilaður. "Ég fór því með kortið heim og bar það saman við annað kort sem ég var með og sá að pinnarnir sem tengjast tölvunni sátu aftar en venjulegt er. Ég opnaði því kortið og platan með pinnunum var laus. Ég færði því plötuna á réttan stað og festi hana með kennaratyggjói. Síðan hefur kortið virkað eins og nýtt," segir Sindri en hann stundar nám í Hlíðaskóla og er í 6. bekk. Spurður hvort hann stefni á að starfa við eitthvað tengt viðgerðum á tækjum í framtíðinni kvaðst hann ekki vera ákveðinn en hefði þó áhuga á forritun og væri byrjaður að fikta við þá iðju.

Alltaf verið tæknilega sinnaður

Móðir Sindra, Þóra Bryndís Þórisdóttir, segir son sinn mjög tæknilega sinnaðan og hann hafi iðulega aðstoðað hana við smábilanir á tækjum heimilisins. "Þó er mér ofarlega í huga þegar við vorum í heimsókn hjá vini okkar, sem er læknir, en hann hafði verið í vandræðum með tölvuna sína. Sindri bað um að fá að kíkja á tölvuna eitt augnablik og sjá hvort hann sæi eitthvað athugavert og á nokkrum mínútum hafði hann fundið vandamálið og lagað það." Aðspurð hvaðan Sindri hefði þennan áhuga kvaðst hún ekki gera sér fyllilega grein fyrir því en taldi að áhugi Sindra á Lego leikföngum hefði sitt að segja.

Sjaldgæft vandamál

Jón Gunnlaugsson, verslunarstjóri BT í Smáralind, segir það sjaldgæft að minniskort sem þessi bili. Tveggja ára ábyrgð sé á þeim ef þau séu gölluð en lítið sé hægt að gera ef ógætilega sé farið með þau. Jón benti á að afrita mætti gögn á annað minniskort til að koma í veg fyrir gagnamissi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert