Á föstudag mun ormurinn W32/Kapser.A@mm eyða fjölmörgum skrám á sýktum tölvum og síðan endurtaka leikinn þriðja dag hvers mánaðar um alla framtíð eða þar til orminum er sjálfum eytt, en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Friðriki Skúlasyni ehf.
Meðal þeirra skjala sem ormurinn mun eyða eru Word skjöl, Excel skjöl, PowerPoint skjöl, Adobe PDF skjöl og Adobe Photoshop skjöl. (Skjölum með eftirfarandi endingum verður eytt: .doc, .xls,.mdb, .mde, .ppt, .pps, .zip, .rar, .pdf, .psd, .dmp).
Í tilkynningu segir að notendur sem ekki hafa hreinsað smitaðar vélar fyrir þennan tíma, og sem ekki eiga afrit af skjölum sínum, munu tapa þeim endanlega.
„ W32/Kapser.A@mm er frábrugðinn flestum veirum og ormum sem komið hafa fram á sjónarsviðið undanfarið þar sem hann er hannaður til þess eins að skemma fyrir notendum með því að eyða skjölum,“ segir í tilkynningu.
Bent er á að W32/Kapser.A@mm berist í viðhengjum við tölvupósta sem lofa klámmyndum eða öðru myndefni sé viðhengi opnað. Þegar viðhengi er opnað smitast tölvan og veiran safnar tölvupóstföngum af harða drifinu og notar þau síðan til að dreifa sér áfram.
F-PROT Antivirus hefur borið kennsl á þennan orm frá því að hann kom fyrst fram á sjónarsviðið þann 16. janúar síðastliðinn. F-PROT Antivirus kemur í veg fyrir smit þar sem forritið er uppsett og hreinsar óvarðar tölvur sem hafa smitast.
W32/Kapser.A@mm er einnig þekktur undir eftirfarandi nöfnum: Kama Sutra worm, W32.Blackmal.E@mm, Email-Worm.Win32.Nyxem.e, W32/Nyxem-D, W32/Tearec.A.worm, W32/MyWife.d, og WORM_GREW.A.